Fréttastofa RÚV krefst þess að Vigdís Hauksdóttir dragi órökstuddar og ósannar ásakanir sínar til baka. Vigdís heldur því fram á Facebooksíðu sinni að Kastljós sé „þekkt fyrir að falsa myndir með umfjöllun“, án þess að nefna um það dæmi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Kastljósi sem var birt á Facebook rétt í þessu.
Í yfirlýsingunni er ásökunum Vigdísar hafnað. Vigdís gefur í skyn að myndirnar sem héraðsdýralæknir Vesturlands tók í eftirlitsheimsóknum að Stafholtsveggjum 2 árin 2015-2016, og fylgdu skoðunarskýrslum þaðan, séu falsaðar. Hafi jafnvel verið teknar á „öðru hænsnabúi í öðru landi“. Þar er hún að vísa í umfjöllun Kastljóss um aðstæður á eggjabúum Brúneggja ehf. undanfarin ár.
„Kastljós fékk aðgang að skoðunarskýrslum frá Matvælastofnun í krafti upplýsingalaga og þeim ljósmyndum og myndböndum sem fylgdu skýrslunum,“ segir í yfirlýsingunni.
„Í þættinum voru þær myndir eingöngu sýndar með frásögn af þeim heimsóknum. Það er óviðunandi að hafður sé uppi slíkur atvinnurógur í garð fréttamanna sem sinna sínum störfum af heilindum og fagmennsku. Ummæli þingmannsins fyrrverandi vega alvarlega að æru og starfsheiðri fréttamanna RÚV og við það verður ekki unað.“