Freyja Haraldsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður Bjartrar framtíðar telur að brotið sé á mannréttindum hennar eftir að Barnaverndarstofa hafnaði beiðni hennar um að gerast varanlegt fósturforeldri. Hún hyggst leita réttar síns og hefur stefnt Barnaverndarstofu. Það er Vísir.is sem greinir frá þessu í morgun.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu segir í samtali við Vísi að Freyja hafi sóst eftir því að gerast fósturforeldri en því hafi verið hafnað. Málinu hafi verið skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála sem komst að sömu niðurstöðu. Hann segist ekki geta rætt um einstaka mál og gat því ekki rökstutt ástæður þess að Barnaverndarstofa synjaði ósk Freyju.
Freyja hefur fengið Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttir, lögmann til að vinna málið fyrir sig sem segir í samtali við Vísi að málið snúist réttlæti og jafna stöðu borgaranna.