Söngvarinn Friðrik Dór þurfti að flýja heimili sitt í gær þar sem kærastan hans og dóttir voru komnar með gubbupest. Friðrik stígur á svið í undankeppni Eurovision á RÚV í kvöld og tók því enga sénsa.
Friðrik Dór telur að eldri bróðir hans, söngvarinn Jón Jónsson sé meintur smitberi:
Já, kæró og litla dóttir okkar voru hér í frekar glötuðum málum. Upphafsmaðurinn er þó Jón bróðir, en við fórum í mat til hans á miðvikudag. Ég veit að maður fær ekki marga sénsa til að sleppa undan pestinni og tók því engan séns í gær og gisti heima hjá mömmu og pabba
Friðrik flytur lagið Í síðasta skipti sem er eitt af tveimur lögum sem lagahöfundateymið StopWaitGo á í keppninni.
En var þetta tilviljun? Var þetta kannski ráðbrugg bróður þíns til að bregða fyrir þig fæti?
„Það er alltaf spurning. Hann hefur alltaf verið staðráðinn í því að viðhalda þessu „litli“ og „stóri“ í okkar sambandi — þáði til dæmis sjálfur hormónameðferð þegar við vorum yngri en bannaði mér að þyggja slíka. Það er ástæðan fyrir því að ég er í dag aðeins 175 sentimetrar á hæð á meðan hann er fallegir 186 sentimetrar,“ segir Friðrik laufléttur.
„Hann hugsar eins með tónlistina. Vill viðhalda því forskoti sem hann hefur. „Þú kemst aldrei í dómarasætið í Talentinu,“ sagði hann við mig um daginn og hló.“