Auglýsing

Friðrik Dór gefur stjórnvöldum góð ráð: „Það er í góðu lagi að skipta um skoðun“

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson birtir á Facebook-síðu sinni í dag hugleiðingu um albönsku fjölskylduna sem var send úr landi í nótt. Hann hvetur stjórnvöld til að skipta um skoðun.

Friðrik segir segir að sé sammála um að hér sé ekki bara röng heldur hreinlega sorgleg ákvörðun á ferðinni. „Fólk er ekki að láta gamminn geisa án rökstuðnings eða án þess að hugsa málið til enda. Enda þarf ekki að hugsa þetta neitt frekar. Fólk er bara innilega sorgmætt,“ segir hann.

Hann birtir mynd sem Stundin birti í morgun af þriggja ára dreng sem var sóttur ásamt fjölskyldu sinni í morgun. Hann er með slímseigjusjúkdóm sem getur ógnað lífi hans þegar verstu köstin koma og hann nær ekki andanum.

„Fjölskylda drengsins hafði búið hér í 10 mánuði, krakkarnir komið sér vel fyrir í leikskóla og skóla ásamt því að fjölskyldufaðirinn hafði stuðning vinnuveitanda síns sem fer um hann fögrum orðum. Hvers vegna að senda þau burt?“ spyr Friðrik og vísar í lög sem segja að það hefði mátt veita fjölskyldunni landvistarleyfi:

12. gr. f. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

„Veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.“

Friðrik bendir á að þetta sé ekki undanþága frá reglunum heldur hluti af þeim. „En það var ekki gert. Í staðinn var sendur hópur lögreglumanna að sækja þau, eins og um stórhættulega glæpamenn væri að ræða,“ segir hann.

Þau sýndu ekki mótþróa heldur mættu óskiljanlegum örlögum sínum hljóðalaust. Þau fara nú aftur til Albaníu þar sem heilsu stráksins litla er ógnað og lífi fjölskylduföðursins líka.

Hann segir að málið snúist ekki um pólitík. „Það snýst um mannréttindi, mannúð og náungakærleik. Ég trúi því ekki að þeir sem tóku þessa ákvörðun sitji núna heima hjá sér ofboðslega ánægðir með eigin ákvörðun. Við ykkur langar mig að segja: Það er í góðu lagi að skipta um skoðun.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing