Í nýjasta þætti Harmageddon á hlaðvarpsveitunni Brotkast fer fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason yfir hin ýmsu þjóðþrifamál og fréttir íslenskra miðla. Í nýjasta þættinum rýnir hann í frétt Vísis þar sem segir að kona ein hafi verið ósátt með að maðurinn hennar væri að rækta fíkniefni með annarri konu.
„Ég fór að hugsa, eins og ég geri oft þegar les svona fréttir, hvað fólk getur efnast svakalega. Ég veit líka um menn á mínum aldri, yngri jafnvel, sem búa í stórum einbýlishúsum í Garðabænum sem hafa ekki gert neitt alla ævi en að hafa selt gras. Í stórum einbýlishúsum í Garðabænum. Þetta er myljandi hagnaður. Hundruði milljóna á ári. Milljarðaveltu sem þessi bransi gefur af sér á Íslandi og við erum alltaf í sama leik kattarins að músinni með því að láta lögguna vera að elta einhverja smádílera og gera neytendum fíkniefna lífið leitt með því að setja það á sakaskrá og svo framvegis. Í stað þess að gera þetta að löglegri vöru sem hægt er að hafa eftirlit með og hægt að skattleggja. Nota ágóðann af skattlagningu í forvarnir og áfengis- og vímuefnameðferðir fyrir fólk. Koma þessum peningum í virkni í þjóðfélaginu í stað þess að leyfa einhverju örfáum glæpamönnum að sitja á milljörðum,“ segir Frosti og bendir á ýmsa punkta máli sínu til stuðnings.
Hægt er að hlusta á myndskeiðið um þessa umfjöllun Harmageddon hér fyrir neðan en ef þú vilt hlusta á þáttinn í heild sinni að þá er það hægt með því að fara inn á vefsíðu Brotkast.