Töluverð umræða hefur myndast um hljóðgæðin í fyrsta þætti nýrrar seríu af Ófærð sem var frumsýndur á öðrum degi jóla. Á samfélagsmiðlum hefur fólk kvartað yfir óskýru hljóði í þættinum. Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri hjá RÚV, segir að ekkert athugavert hafi fundist í samtali við Morgunblaðið.
Sjá einnig: Ben Stiller ánægður með Ófærð: „Elska þessa þætti og Ólaf Darra“
„Við sannreyndum hljóðið vel og vandlega fyrir og eftir útsendingu, bæði hljóðblöndun og útsendingarstyrk og fundum ekkert athugavert. Með öðrum orðum þá er allt eins og það á að vera,“ segir Skarphéðinn á mbl.is.
Hann bætir við að það gerist nær undantekningarlaust að kvartað sé yfir hljóði eða samtölum þegar boðið er upp á leikið íslenskt efni í sjónvarpinu. Það sama gerist á Norðurlöndunum.
„Það virðist sem fólk eigi erfiðara með að horfa á og skilja leikið efni án texta. Það sama gerist iðulega á Norðurlöndunum þegar boðið er upp á leikið norrænt efni án texta, þá berast reglulega athugasemdir vegna hljóðsins og að samtöl skiljist illa,“ segir hann og bætir við að Danska ríkisútvarpið hafi staðfest að þau fái reglulega samskonar kvartanir vegne danskra þáttaraða.
„Þeirra skýring er að danskir áhorfendur séu einfaldlega óvanir því að horfa á leikið efni án texta, jafnvel þótt það sé á dönsku og eigi þar með að skiljast.“
Skarphéðinn bendir svo á að hægt sé að nálgast texta á síðu 888 á textavarpinu
Tilgáta: Hljóðið í Ófærð er ekkert verra en almennt í erlendum bíómyndum og þáttum. Við tökum bara sjaldnast eftir óskýrum orðaskilum í erlendu efni því við horfum yfirleitt á það textað.
— Bergsteinn Sigurðsson (@bergsteinn3) December 27, 2018
Þökkum fyrir að textavarpið og síða 888 er þrátt fyrir allt ennþá til staðar #íslenskamuldrið #ófærð
— Ásta (@inannaisdead) December 26, 2018
Fer engin í nám erlendis í hljóðblöndun eða er þetta bara svona sér íslenskt trademark að heyra ekki mælt mál? #ófærð
— Eiríkur Rúnarsson (@EirikurMar) December 27, 2018
Það þarf að vinna í því að gera íslenska sjónvarpsleikara skýrmæltari eða texta allt draslið #ófærð
— Sólrún Sesselja (@solrunsesselja) December 26, 2018
Hljóð í sjónvarpi og afruglara hækkað í botn, samt þarf að hafa sig alla við til að greina orðaskil. Er ekki hægt að búa til íslenskt sjónvarpsefni með skiljanlegu hljóði? #ofaerd #ófærð
— Anna Lilja Thoris. (@AnnaLilja) December 26, 2018