Líkamsleifar sem fundust nýlega á akri í Minnesota í Bandaríkjunum eru af Jacob Wetterling, 11 ára dreng sem var numinn á brott fyrir 27 árum. Maðurinn sem vísaði á líkamsleifarnar var yfirheyrður skömmu eftir hvarf drengsins, grunaður um að hafa átt þátt í því, neitaði alfarið sök í málinu. Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian.
Wetterling var að hjóla samt bróður sínum og vini 22. október árið 1989 þegar grímuklæddur maður kom til þeirra, vopnaður byssu. Hann spurði drengina hvað þeir væru gamlir, greip því næst Wetterling og sagði hinum drengjunum að hlaupa inn í skóginn, annars myndi hann skjóta þá. Ekkert hefur sést til Wetterling eftir það.
Enginn hefur verið ákærður vegna hvarfs Wetterling. Á síðasta ári hófu yfirvöld rannsókn á hvarfinu á ný og leiddi hún lögreglu að Danny Heinrich, 53 ára gömlum karlmanni. Hann var yfirheyrður skömmu eftir hvarf drengsins, þá 26 ára. Í gögnum málsins segir að mynstur í skóm og dekkjum á bíl sem hann hafði til umráða hafi passað við spor sem fundust nálægt staðnum þar sem Wetterling var numinn á brott. Lögregla gerði einnig leit á heimili hans þar sem hann bjó ásamt föður sínum en þar fannst meðal annars mynd af ungum dreng í nærfötum.
Þá hefur komið fram hjá FBI að Heinrich passi við lýsingu á manni sem beitti nokkra drengi í Paynesville kynferðislegu ofbeldi á árinum 1986 til 1988. Þá fannst lífssýni úr honum fyrr á þessu ári á peysu 12 ára drengs sem var numinn á brott í Cold Spring og misnotaður kynferðislega, aðeins níu mánuðum áður en Wetterling var rænt.
Heinrich mun koma fyrir dóm í næsta mánuði en hann er grunaður um að hafa haft töluvert magn af barnaklámi undir höndum.
Foreldrar litla drengsins lögðu mikið á sig til að vekja athygli á málinu. Þau vildu meðal annars að lögum um kynferðisbrotamenn yrði breytt þannig að ríki þurfi að halda skrá yfir alla sem dæmdir hafa verið fyrir kynferðisbrot. Breytingin var samþykkt árið 1994.