Fjölmiðlamennirnir Egill Helgason og Þorsteinn Joð furða sig á því að fótboltalýsandinn Guðmundur Benediktsson, betur þekktur sem Gummi Ben, hafi ekki verið tilnefndur til Edduverðlauna sem sjónvarpsmaður ársins á Íslandi. Tilnefningar til Edduverðlauna voru kynntar í gær.
Egill Helgason segir í pistli á Eyjunni að erfitt sé að verðlauna fólk á hverju ári í þessum örsmáa kvikmynda- og sjónvarpsbransa hér á landi. „Íslendingar eignuðust á síðasta ári fyrstu alþjóðlegu sjónvarpsstjörnuna. Þeim hefur ekki verið til að dreifa hingað til,“ skrifar Egill.
Gummi Ben lýsti öllum leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Evrópumótinu í sumar og fór á kostum. Hann sigraði hug og hjörtu Íslendinga og vakti heimsathygli með tilfinningaþrungnum lýsingum sínum á leikjum Íslands. Gummi hefur síðan þá verið tíður gestur í þekktum sjónvarpsþáttum erlendis ásamt því að milljónir hafa hlustað á lýsingar hans á internetinu.
„Þetta er hinn frábæri knattleikjalýsandi Guðmundur Benediktsson. Efni með honum var spilað í sjónvarpi út um alla heimsbyggðina, en hann er ekki tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt. Í hvaða heimi lifa þeir sem yfirsést hann?“ skrifar Egill í pistlinum.
Þorsteinn Joð vann náið með Gumma í kringum Evrópumótið í sumar. Hann lýsir einnig furðu sinni á því að Gummi væri ekki tilnefndur til Edduverðlauna á Twitter.
Eddan sjónvarpsverðlaun…á heimsmælikvarða! Hvernig er ekki hægt að tilnefna Gumma Ben sem sjónvarpsmann ársins 2016?
— Thorsteinn J. (@Thorsteinnj) February 1, 2017
Þau sem tilnefnd eru sem sjónvarpsmaður ársins eru Ævar Þór Benediktsson, Andri Freyr Hilmarsson, Brynja Þorgeirsdóttir, Helgi Seljan og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir.