Nú styttist í það að tónleikar rokksveitarinnar Guns N’ Roses hefjist á Laugardalsvelli. Fyrstu tónleikagestirnir voru mættir í röð fyrir utan völlinn klukkan sex í morgun.
Hliðin á Laugardalsvelli opna kl. 16.30 í dag. Íslenska eyðimerkurrokksveitin Brain Police stígur á stokk kl. 17.15 og klukkutíma síðar spila Tyler Bryand & the Shakedowns. Veislan nær svo hámarki um kl. 20 þegar Guns N’ Roses mæta á sviðið þar sem búast má við miklu sjónarspili og stórkostlegu tónaflóði að því er kemur fram í tilkynningu skipuleggjenda.
Allra hörðustu aðdáendur sveitarinnar mættu eldsnemma í morgun og ætla sér greinilega að ná góðum stað á tónleikunum. Reiknað er með yfir 25 þúsund manns á hátíðina.