Meðlimir samtakanna Aktívegan, sem mótmælti fyrir utan Sláturfélag Suðurlands þegar komið var með lömb til slátrunar á sunnudaginn, kaupa ekki fatnað á borð við dúnúlpur enda brýtur það í bága við hugsjónir þeirra. Þetta kemur fram á DV.
Margir hafa tjáð sig um mótmæli hópsins og myndband sem birt var frá þeim en þar má meðal annars sjá nokkrar unglingsstúlkur gráta örlög dýranna, klæddar dúnúlpum. Sjáðu myndbandið frá mótmælunum hér fyrir neðan.
Á Facebook-síðu samtakanna segir að Aktívegan séu samtök um réttindi dýra til lífs og frelsis. „Við erum samfélag fólk sem forðast að neyta dýraafurða af siðferðisástæðum,“ segir einnig á síðunni.
Sjá einnig: Grétu hástöfum fyrir utan Sláturfélag Suðurlands þegar komið var með lömb til slátrunar
Tinna Björg Hilmarsdóttir, meðlimur í Aktívegan, segir í viðtali við DV að ekki sé sjálfsagt að manneskja hendi öllu út úr fataskápnum um leið og hún gerist „veganisti.“ Þá eigi ekki allir peninga til að kaupa svokölluð vegan-föt þegar í stað, heldur nýti fólkið þær flíkur sem það á til hins ítrasta. „Það var enginn af okkur í dúnúlpum- eða með ekta feld á úlpuhettunum,“ bætir hún við.
Mótmælendum var heitt í hamsi á sunnudaginn og grétu sumir þeirra hástöfum þegar lömbin voru á leið út úr flutningabílnum og inn í sláturhúsið. Þeir beindu orðum sínum til starfsfólk Sláturfélags Suðurlands og var það meðal annars kallað morðingjar og fyrirtækinu líkt við útrýmingarbúðir.
Tinna segir að hópurinn hafi ekki verið að ráðast á starfsfólkið sjálf heldur iðnaðinn og eðli hans.
Við lítum ekki á dýrin sem óæðri okkur mönnum, hvort sem það eru kindur, svín eða kettir. Fyrir okkur er kind jafn dýrmæt og hver annar hvolpur. Ef við myndum setja hunda eða ketti í sláturtrukk þá er ég nokkuð viss um að flestir myndu taka þátt í mótmælum með okkur.