Mikil reiði er á meðal stuðningsfólks Stjörnunnar sem telur stuðningssveit ÍR, Ghetto Hooligans, hafa sýnt Hlyni Bæringssyni, miðherja Stjörnunnar, vanvirðingu. ÍR sló Stjörnuna út úr úrslitakeppninni í Domino’s-deild karla í körfubolta í gær með sigri í gríðarlega spennandi leik í Garðabænum.
Hlynur lék ekki með Stjörnunni í fjórða leik liðanna í gærkvöldi en hann hlaut meiðsli eftir þungt högg frá Ryan Taylor, leikmanni ÍR, í þriðja leik liðanna í síðustu viku. Ryan fékk þriggja leikja bann fyrir höggið, sem hleypti illu blóði einvígi liðanna — sérstaklega á meðal stuðningsfólks.
Stuðningsmannasveit ÍR mætti með Stjörnutreyju á herðatré í Garðabæinn í gærkvöldi. Á treyjunni hékk borði sem á stóð: „Drama Queen“ og stuðningsfólk Stjörnunnar leit svo á að uppátækinu hafi verið beint til Hlyns.
Útvarpsmaðurinn Máni Pétursson, einn dyggasti stuðningsmaður Stjörnunnar, birti mynd af stuðningsmanni ÍR með umrædda treyju í gærkvöldi og sagðist vona að ÍR yrði sópað út úr úrslitakeppninni. „Hlynur spilaði ekki í dag vegna höfuðmeiðsla sem allir vita að eru alvarleg meiðsli og geta endað feril leikmanna,“ sagði hann og bætti svo þessu tísti við:
Af gefnu tilefni. Þá er rétt að segja að það eru einhverjir IR ingar bunir að senda skilaboð og eru miður sín yfir þessu. Ég ætla natturulega ekki að dæma allt IR af nokkrum fábjánum.
— Máni Pétursson (@Manipeturs) March 26, 2018
Stuðningsmaðurinn á myndinni hefur í hópnum Domino’s spjallið á Facebook beðist afsökunar á því sem hann kallar taktlaust grín. Hann hafnar því að treyjunni hafi sérstaklega verið beint til Hlyns. Nútíminn hafði samband við stuðningsmanninn sem baðst undan viðtali um málið.
Sjá einnig: Biður þá sem Drama queen-borðinn særði afsökunar: „Gríninu var ekki beint að áverkum Hlyns“