SpaceShipTwo, geimskutla auðkýfingsins Richards Branson sprakk í prufuflugi yfir Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu í dag. Annar flugmaðurinn lést og hinn er alvarlega slasaður samkvæmt frétt á vef breska dagblaðsins The Telegraph.
Flugmanninum sem slapp lifandi frá slysinu tókst að skjóta sér úr vélinni en lík hins fannst í bundið í sæti í flaki geimskutlunnar, samkvæmt vitnum á svæðinu.
Geimskutlan sprakk skömmu eftir að flugmennirnir ræstu sérstakar eldflaugavélar SpaceShipTwo en það hafði ekki verið gert í níu mánuði. Tafir höfðu verið á prófun geimskutlunnar vegna vandræða við smíði vélanna.
Thoughts with all @virgingalactic & Scaled, thanks for all your messages of support. I’m flying to Mojave immediately to be with the team.
— Richard Branson (@richardbranson) October 31, 2014
Um 700 manns hafa bókað ferð út í geim með fyrirtækinu. Á meðal þeirra eru Leonardo DiCaprio, Russell Brand, Katy Perry, vísindamaðurinn Stephen Hawking og athafnamaðurinn Gísli Gíslason.
Í viðtali við DV segist Gísli ætla að fylgjast með framvindu mála:
„Bara almennt eru geimferðir og allt sem þeim tengist mjög hættulegt og ég held að það sé, svona hingað til allavega í þessum fyrsta fasa, svona tíu prósent líkur á að eitthvað gerist,“ segir hann og bætir við að þetta breyti engu um fyrirætlanir hans.
Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af neinu.