Leikarinn George Clooney gaf 14 bestu vinum sínum milljón dali á mann fyrir fjórum árum. Og borgaði meira að segja skattinn af gjöfunum. Þetta kom fram í viðtali við einn vina hans í þættinum MSNBC Headliners.
Rande Gerber, vinur og viðskiptafélagi George, útskýrði í þættinum að vinahópurinn kalli sig „The Boys“ eða „Strákarnir“. „George hringdi í mig og hina strákana og bað okkur að taka 27. september árið 2013 frá. Hann sagðist ætla að bjóða öllum heim til sín í mat,“ sagði Rande.
Það sem blasti við þeim þegar þeir komu á staðinn var eins og atriði í kvikmynd. Svartar töskur voru á borðinu fyrir framan hvern stól og George bauð þá velkomna. Rande hefur eftir leikaranum að hann hafi viljað að þeir vissu að þeir ættu stað í hjarta hans og hverskonar áhrif þeir hafi haft á líf hans.
Þegar ég kom til Los Angeles svaf ég á sófunum heima hjá ykkur. Ég er svo heppinn að eiga ykkur að og ég væri ekki þar sem ég er í dag án ykkar. Það er því afar mikilvægt fyrir mig að gefa til baka á meðan við erum hér allir saman. Þannig að ég vil að þið opnið töskurnar.
Rande segir að ofan í töskunum hafi leynst milljón dalir í 20 dala seðlum. „Við fengum allir 14 milljón dali. Hver einn og einasti. Við vorum í sjokki. Hvaða rugl er þetta?“
George sagðist vita að einhverjir af þeim væru í fjárhagsvandræðum en sagði að nú þyrftu þeir ekki lengur að hafa áhyggjur af fasteignaláninu eða menntun barna sinna.
Rande segist hafa tekið George afsíðis og sagt honum að hann gæti ekki tekið við peningunum. Hann átti hluta í tekílaframleiðandanum Casamigos sem var seldur á milljarð dali fyrr á árinu en George Clooney átti einnig stóran hlut í fyrirtækinu. Þeir höfðu því hagnast vel. George tilkynnti þá vinum sínum að ef Rande myndi ekki taka við peningunum fengi þá enginn.
Rande tók því við peningunum og gaf þá að eigin sögn til góðgerðarmála. „Svona er George,“ sagði hann. „Þetta var 27. september 2013. Hann kvæntist svo Amal 27. september 2014. Þetta kalla ég gott karma.“