Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur verið boðuð á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 13 í dag. Líklegt þykir að Guðni afhendi Katrínu stjórnarmyndunarumboðið en stjórnarmyndunarviðræðum á milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar var slitið í gær.
Sjá einnig: Katrín Jakobs þurfti að flýja trylltan geitung í miðju viðtali við RÚV, sjáðu myndbandið
Katrín deilir ansi skemmtilegri sögu um gærdaginn á Facebook-síðu sinni. „Dagurinn í gær fór um margt öðruvísi en ég ætlaði og kenndi mér að mikilvægi hlutanna er afstætt,“ segir hún.
„Það rann upp fyrir mér þegar ég hringdi í manninn minn til að segja honum að ég hefði fengið boð um að mæta á Bessastaði í dag — sem mér fannst sjálfri soldil tíðindi og hann æpti: „Ég get ekki talað við þig, ég er í röðinni á Dómínós að sækja tvennutilboð.““
Hún ætti kannski bara að hitta Guðna þar.