Gleðigangan fer fram í dag og er þetta í nítjánda skipti sem gangan er haldin hér á landi. Gangan er hápunktur Hinsegin daga sem hófust á þriðjudag og enda á morgun, sunnudag.
Í göngunni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli hverju sinni.
Baráttugleðin er yfirskrift Hinsegin daga 2018. Með því er vísað til þeirrar þrotlausu baráttu sem hinsegin fólk á Íslandi hefur háð á síðustu árum og áratugum.
Undanfarin ár hafa um 70.000-100.000 gestir tekið þátt í dagskrá Hinsegin daga í tengslum við gleðigönguna og búast skipuleggjendur við miklum mannfjölda í ár.
Gangan leggur af stað frá gatnamótum Sæbrautar og Faxagötu stundvíslega kl. 14 og bíður ekki eftir neinum. Gengið verður eftir Kalkofnsvegi, Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu. Þá taka við glæsilegir útitónleikar í Hljómskálagarðinum.
Á heimasíðu Hinsegin daga er þeim sem vilja ganga með, en hafa ekki sótt um þátttöku og eru ekki með sérstakt atriði, bent á að bíða með að slást í hópinn þar til síðasti vagninn hefur farið fram hjá.
Auglýsingar eru bannaðar í göngunni nema í örfáum undantekningartilvikum. Þá er bent á að steggir og gæsir eru ekki velkomin í gönguna.
„Við göngum í þágu mannréttinda og mannvirðingar og biðjum gæsa- og steggjapartí vinsamlegast að virða það og finna sér annan vettvang.”