Íslenska söngkonan Sara Pétursdóttir, betur þekkt sem Glowie, hitar upp fyrir Ed Sheeran þegar hann kemur til landsins og spilar á Laugardalsvellinum 10. og 11. ágúst næstkomandi.
Sjá einnig: Zara Larsson og James Bay koma til Íslands með Ed Sheeran
Í tilkynningu fyrir Senu Live segir að Sheeran hafi sjálfur valið Glowie til að koma fram á tónleikunum en áður hafði verið greint frá því að stórstjörnurnar James Bay og Zara Larsson hiti upp fyrir tónleikana. Það verður því sannkölluð tónlistarveisla á boðstólnum.
Glowie er aðeins 21 árs gömul en hún þykir eitt mesta efnið í poppheiminum um þessar mundir. Hún sló fyrst í gegn hér á landi árið 2015 með laginu No More sem var vinsælasta lag Íslands það ár.
Sjá einnig: Blaðamaður NME lofsamar Glowie: „Getur breytt úreltum hugsunarhætti í popptónlist“
Von er á nýrri breiðskífu frá söngkonunni en hún er á stórum plötusamningi við Columbia og býr nú í London þar sem hún vinnur að plötunni.