Blaðamaðurinn Godfrey Hall biður lesendur Morgunblaðsins að kanna hvort einhver þeirra eigi svarta húfu frá 66°Norður sem heitir Katla. Þetta kemur fram í Velvakanda dagsins í dag.
Húfan hefur orðið einskonar vörumerki hans á ljósmyndum sem hafa verið teknar af honum víða um heim en svo óheppilega vildi til að hann týndi húfunni. Þegar hann ætlaði að kaupa aðra húfu hjá versluninni kom í ljós að húfan er ekki framleidd lengur.
„Mér datt því í hug að leita til lesenda Morgunblaðsins og kanna hvort svo vel vildi til að einhver þeirra ætti svona húfu í svörtu, sem búið er að setja í geymslu eða hefur lent aftast í skáp eða skúffu. Húfan þarf að vera nákvæmlega eins og sú sem myndin sýnir en ekki skiptir máli hvort hún er ný eða notuð,“ segir í Morgunblaðinu í dag.
Hall vonast eftir góðum undirtektum og gefur upp netfangið godfrey@godfreyhall.demon.co.uk.