Stytta úr leir af geirfuglapari frá árinu 1945 eftir listamanninn Guðmund frá Miðdal verður boðið upp á 155 þúsund krónur á uppboði Góða hirðisins í næsta mánuði. Um lágmarksboð er að ræða þannig að styttan gæti farið á hærra verði.
Fjöldi leirstytta eftir Guðmund verður boðinn upp á uppboðinu. Þar er að finna fíl, sólskríkjur, geirfugla, hafmeyju, folald, hvítabjörn með hún, rjúpu með unga, kóp og sæljón.
Lágmarksboð fyrir fílinn er 65 þúsund krónur. Lágmarksboð fyrir mjög sjaldgæfan stakan geirfugl er 95 þúsund krónur og lágmarksboð fyrir styttu af folaldi er 55 þúsund krónur.
Friðrik Ragnarsson, verslunarstjóri Góða hirðisins, segir að hópur fólks safni verkum Guðmundar og hann vonast til þess að verkin seljist öll á uppboðinu.
„Það er viss hópur sem kaupir þetta, fólk sem þekkir verkin.
Verkin berast reglulega til Góða hirðisins, ein og ein stytta. „Við höfum að undanförnu geymt bestu hlutina sem hafa komið til að geta sett á uppboðið,“ segir Friðrik.
Hann segir að Hansa hillurnar víðfrægu séu afar vinsælar í Góða hirðinum og reglulega sé spurt um þær. Hillurnar skila sér af og til í búðina en þó er ljóst að eftirspurnin er heldur meiri en framboðið.
Hér má sjá allt sem boðið verður upp á uppboðinu sem fer fram 10. desember.
Guðmundur Einarsson frá Miðdal í Mosfellsbæ (1895-1963) var myndlistarmaður.
Hann var tvígiftur. Hann giftist þýsku fyrirsætunni Therese Zeitner og komu þau hingað til lands 1926. Hún var sjö árum eldri en hann, fædd 1888. Þremur árum síðar kom Lydia,dóttir Theresu, hingað til lands en hún var fædd árið 1911.
Árið 1932 eignaðist Guðmundur fyrsta barnið með Lydiu, Einar Steinólf, fáeinum vikum eftir að hann eignaðist Guðmund (Erró) með Soffíu Kristinsdóttur. Guðmundur og Therese skildu að lokum en hún bjó meira eða minna með Guðmundi, Lydiu og ömmubörnunum til dauðadags.
Guðmundur og Lydia giftust síðar og áttu fleiri börn: Yngva Örn, Auði Valdísi, Ara Trausta og Egil Má