Verslunin Rafver hefur selt rúmlega fjögur hundruð gólfhreinsivélar fyrir heimili á einum og hálfum mánuði. Fyrsta sendingin seldist upp á einum og hálfum degi og var búið að panta upp næstum alla aðra sendinguna þegar hún kom í búðina á mánudaginn. Hið sama á við um sendinguna sem von er á í byrjun næsta mánaðar. Vélin kostar 29.810 krónur.
Snapparinn Sigrún Sigurpálsdóttir (sigrunsigurpals) fékk senda vélina að gjöf eftir að fyrsta sendingin kom til landsins. Hún hefur verið dugleg að sýna vélina á Snapchat og rignir yfir hana spurningum frá fylgjendum sem vilja vita meira um hvernig hún er notuð. Ánægja Sigrúnar með vélina hefur án efa átt stóran þátt í vinsældum gólfhreinsivélarinnar.
Þá er vélinni einnig farið að bregða fyrir á snappi Guðrúnar Veigu Guðmundsdóttur (gveiga85). Fylgjendur hennar hafa fengið að kynnast því hversu iðinn eiginmaður hennar er við þrif og er hann í sjöunda himni þessa dagana með tækið.
Ágúst Einarsson, einn eigandi Rafvers, segist í samtali við Nútímann ekki endilega hafa átt von á svona miklum vinsældum á skömmum tíma. „Við reiknuðum með því að geta átt þetta í viku eða meira,“ segir hann. Margir hafa haft samband við verslunina síðustu daga og vikur og spurt um vélina. Ágúst segir að fólkið hafi sýnt stillingu þó að vélin hafi meira og minna verið uppseld frá því að Rafver hóf sölu á henni. Margir hafi aftur á móti brugðið á það ráð að skrá sig á biðlista eftir vélinni.