Athugið: Fréttin hefur verið uppfærð. Samtök grænmetisæta sendu frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að niðurstöðurnar hafi verið mistúlkaðar.
Grænmetisfæði hefur meiri áhrif á loftlagsbreytingar en hefðbundin fæða. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem vísindamenn við Carnegie Mellon háskóla í Pensilvaníu í Bandaríkjunum hafa birt í fræðiritinu Environment Systems and Decisions.
Fjallað er um rannsóknina á matarvef Vice. Heilbrigðisyfirvöld víða um heim hafa hvatt fólk til að minnka kjötát og borða meira af ávöxtum, grænmeti og fiski. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hefur fólk því óvart verið hvatt til að ganga á fleiri auðlindir og valda þannig meiri losun gróðurhúsalofttegunda á hverja kaloríu sem það innbyrðir.
Kaloríur eru lykilatriði í rannsókninni. Enginn deilir um að það þarf t.d. meira vatn og aðrar auðlindir til að ala svín en þegar það á að rækta nokkra kálhausa. Málið er hins vegar að samkvæmt rannsókninni fæða tíu kíló af svínakjöti miklu fleiri manneskjur en tíu kíló af káli. Maður þarf að borða meira af káli en svínakjöti til að verða saddur. Þar liggur hundurinn grafinn.
Rannsóknin skoðaði neyslumynstur matar í Bandaríkjunum, mældi orkunotkun, útblásur gróðurhúsalofttegunda og vatnsþörf. Hópurinn ætlaði upphaflega að skoða hvernig offitufaraldurinn í Bandaríkjunum hefur áhrif á umhverfið og taka mið af landbúnaði, vinnslu og flutningi ásamt því að skoða flóknari þætti eins og smásölu á vörunum, þjónustu og jafnvel geymslu.
En þegar allt var tekið saman litu niðurstöðurnar ekki vel út fyrir grænmetisætur.
Paul Fischbeck, prófessor við Carnegie Mellon háskóla, segir í yfirlýsingu að neysla á káli sé þrisvar sinnum verri hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda en neysla á beikoni.
Mjög mikið af vinsælu grænmæti krefst þess að gengið sé á fleiri auðlindir á hverja kaloríu en marga grunar. Eggaldin, sellerí og gúrkur koma sérstaklega illa út miðað við svín og kjúkling.
Það er samt enginn að segja að ofát á kjöti sé gott. Að borða aðeins minna er gott fyrir alla, fyrir þig og fyrir jörðina. En að skipta alfarið út kjöti fyrir ávexti, grænmeti og fisk eykur hins vegar útblástur um sex prósent, vatnsnotkun um tíu prósent og orkunotkun um 38 prósent, samkvæmt rannsókninni.
Michelle Tom, sem vann að rannsókninni, segir að sambandið milli matarræðis og umhverfisins sé flókið. „Það sem er gott fyrir okkur heilsufarslega er ekki endilega gott fyrir umhverfið.“
Uppfært 19. desember 2106:
Grænmetisfæði hefur ekki skaðlegri áhrif á umhverfið en hefðbundið bandarískt matarræði. Sumt grænmeti veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda á hverja kaloríu en sumt kjöt. Neysla jurtafæðis dregur verulega úr umhverfismengun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samtökum grænmetisæta á Íslandi.
Sjá einnig: Grænmetisfæði ekki verra fyrir umhverfið en beikon, segja rannsókn mistúlkaða