Akureyringurinn Grétar Skúli Gunnarsson hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um mat. Í byrjun vikunnar fór hann ásamt vinum sínum í hádegismat á veitingastaðinn Sushi Corner á Akureyri en þar er boðið upp á sushi hlaðborð. Þar gerði Grétar sér lítið fyrir og borðaði 48 diska af sushi. Grétar segir átið hafa verið auðvelt.
„Ég ætlaði nú bara að fá mér hádegismat en hitti strák sem ég þekki úr lyftingum sem sagði mér að metið á staðnum væru 47 diskar. Ég var rólegur til að byrja með en áður en ég vissi af var ég búinn að éta 30 diska,“ segir Grétar í samtali við Nútímann.
Grétar hefur eins og áður segir alltaf verið mikið fyrir að borða mat í miklu magni og var ungur þegar hann byrjað að borða mikið magn í einu. „Þegar ég var 11 ára þá borðaði ég heilt lambalæri sjálfur. Síðan þá hefur alltaf verið eldað sér læri og meðlæti handa mér í matarboðum,“ segir Grétar sem þakkar ömmu sinni og aflraunamanninum Torfa Ólafssyni fyrir þennan magnaða hæfileika.
Grétar hefur oft keppt við fólk í áti en aldrei fundið viðeigandi samkeppni. „Ég hugsa að kjöt át sé mín sérgrein. Ég át t.d. einu sinni nautalærisvöðva sem var 4,4 kíló. Ég hugsa samt að ég sé samt stoltastur af því hafa sigrað afa minn í átkeppni á bolludaginn þegar ég var 12 ára. Þá borðaði ég 69 bollur á einum degi. Mig minnir að afi hafi ekki náð nema 60,“ segir Grétar.