Aktívegan, samtök um réttindi dýra til lífs og frelsis, stóðu fyrir mótmælum fyrir utan girðingu við hús Sláturfélags Suðurlands í gær en verið var að koma með lömb til slátrunar. DV greindi frá málinu.
Mótmælendunum var heitt í hamsi og grétu sumir þeirra hástöfum þegar lömbin voru á leið út úr flutningabílnum og inn í sláturhúsið.
„Hvernig getið þið þetta? Hvernig sofnið þið á nóttunni, drepandi dýr með köldu blóði. Morðingjar. Setjið ykkur í spor þeirra. Þið eruð að drepa þau. Þetta eru útrýmingarbúðir eins og í heimsstyrjöldinni. Þið eruð að drepa þau. Þið eruð að myrða saklausa einstaklinga. Til að græða á þeim peninga,“ hrópaði einn mótælandanna.
Aktívegan birtu myndskeið af viðburðinum á samfélagsmiðlum. Samtökin ætla að halda mótmælunum áfram næstu sunnudaga.