Gríðarleg eftirspurn er eftir ösnum í Kína um þessar mundir en gelatín, sem framleitt er úr dýrinu, er lykillinn að einni vinsælustu lækningaraðferð Kínverja.
Þetta hefur leitt til þess að stofninn hefur dregist verulega saman á síðustu tuttugu árum, eða um fimm milljónir dýra. Frá þessu er greint á fréttavef CNN.
Efnið ejioa er notað til að meðhöndla hina ýmsu kvilla og veikindi, allt frá hita til svefnleysis. Gelatínið kemur úr húð asnanna og þarf að leggja hana í bleyti og plokka hana til að ná efninu úr henni.
Kína hefur leitað til Afríku til að anna eftirspurninni og eiga nóg af gelatíni fyrir ejioa. Það virðist þó ætla að verða þjóðinni sífellt erfiðara.
Nokkur lönd heimsálfunnar hafa bannað útflutning asna, þar á meðal Nígería. Á þessu ári hafa 80 þúsund asnar verið seldir úr landinu sem er töluverð aukning frá því á síðasta ári þegar 27 þúsund asnar voru seldir úr landi allt árið.
Búrkína Fasó hefur einnig bannað útflutning asna en gripið var til þess eftir að 45 þúsund dýrum var slátrað á hálfu ári. Áður en ösnunum var slátrað voru 1,4 milljónir slíkra í landinu.