Marc Carter, þriggja barna faðir í Englandi, óskaði á mánudag eftir tiltekinni gerð af Tommee Tippee-bolla á Twitter fyrir þrettán ára einhverfan son sinn sem neitar að drekka úr öðru.
Fleiri en 17 þúsund manns hafa deilt tístinu.
Bolli drengsins er að detta í sundur og þar sem hann er ekki framleiddur lengur ákvað Carter að kanna hvort hann leyndist einhvers staðar úti í heimi. BBC greinir frá málinu.
Reward for cup like this! Son has severe #autism & would rather go to A&E dehydrated than use ANY other cup – colour shape etc PLEASE SHARE pic.twitter.com/iglWs9IKA9
— ????????? (@OrigGrumpyDad) November 14, 2016
Carter segist alls ekki hafa búist við viðbrögðunum sem hann fékk við tístinu. Fjölmargir hafa brugðist við beiðni hans og boðist til að senda honum bolla og aðrir hafa óskað honum góðs gengis.
„Ég grét. Þetta hefur verið ótrúlegt. Ég bjóst ekki við þessu,“ sagði Carter í samtali við BBC. Hann bauðst til þess að borga sendingarkostnaðinn en fólkið sem hefur boðist til að senda honum bolla hefur ekki tekið það í mál.
Drengurinn hefur drukkið úr bláum Tommee Tippee-bolla frá því að hann var tveggja ára gamall og tekur ekki mál að drekka úr öðru. Faðir hans segir að fólk hafi oft sagt að drengurinn muni gefa sig á endanum og drekka þegar hann verði þyrstur. Carter segir það ekki rétt og bendir á að drengurinn hafi tvisvar verið fluttur á sjúkrahús með alvarlega ofþornunun.
Carter hefur þegar fengið sjö bolla senda og vonast til að fá enn fleiri. Hann segir að drengurinn gæti þurft á bollunum að halda allt sitt líf og því verði gott að eiga birgðir.