Stórir Facebook-hópar eru sífellt að verða fyrirferðarmeiri í umræðunni en nýjasta dæmið er Costco-hópurinn frægi þar sem tæplega 90 þúsund Íslendingar deila reynslu sinni úr umtöluðustu stórverslun landsins.
Fleiri stórir hópar hafa verið áberandi á síðustu árum og má þar nefna Góða systir, Beauty tips og Brask og brall. Allir eiga þessir hópar það sameignlegt að hafa leiðtoga sem stjórna hópnum.
Þessir leiðtogar þurfa að halda uppi aga innan hópanna og sjá til þess að reglum sé framfylgt. Nútíminn setti sig í samband við fjóra stjórnendur á stórum Facebook-hópum og fékk að skyggnast inn í líf þeirra.
Strangar reglur
Einn þeirra er Frank Höybye stjórnandi „Brask og brall“ (104.700 meðlimir) sem er sölusíða sem hefur rúmlega 100 þúsund meðlimi. Frank segist fylgjast með síðunni á hverjum degi og eyða nokkrum klukkutímum á dag í eftirlit.
Þegar svona margir eru í einum hóp á Facebook reyna margir að nýta sér það, t.d til að auglýsa vöru og þjónustu sem ekki á heima á viðkomandi síðum. Frank fylgist þó vel með og hikar ekki við að eyða innleggjum, „Það er mjög mikið um það að fólk reyni að misnota hópinn og ef að fólk skilur ekki vinalegt tiltal þá eru viðkomandi blokkeraður,“ segir Frank.
Áslaug María Agnrsdóttir, stjórnandi Beauty tips (34.500 meðlimir) tekur í sama streng en hún hikar ekki við að eyða efni sem ekki á heima inn á hópnum. „Fólk er mjög duglegt að tilkynna óviðeigandi innlegg og ég fer yfir þau. Annars ef ég rek augun í eitthvað sem á ekki heima þarna inni þá eyði ég því,“ segir hún.
Hrafnhildur Jóhannesdóttir er einn af stjórnendum hópsins Góða systir (51.100 meðlimir) en hann er eingöngu ætlaður konum. Hún segir það hafa gengið nokkuð vel að fá konurnar til að framfylgja reglum síðunnar þó það séu alltaf einhverjir aðilar ósáttir við þær reglur sem eru settar. „Við eyðum auglýsingum og því efni sem okkur þykir ekki vera í anda síðunnar,“ segir Hrafnhildur. Aðspurð um þann tíma sem hún eyðir í vinnu við síðuna segir hún það vera ágætisvinna að vera stjórnandi á svona stórri síðu. „Maður reynir að vera alltaf á vaktinni og fylgjast með.“
Þegar svo margir einstaklingar eru saman komnir á einn stað skapast aðstæður til að auglýsa ýmsa vöru og þjónustu. Stjórnendurnir eru duglegir við að eyða auglýsingum sem ekki eiga heima á síðum sem þessum og þá hafa aðilar og fyrirtæki reynt að kaupa grúbburnar. Frank Höybey stjórnandi brask og brall hefur t.a.m. fengið freistandi tilboð. „Já, það hafa komið boð í hana upp á háa fjárhæðir,“ segir Frank.
Notendur vanþakklátir
Allir stjórnendurnir sem Nútíminn setti sig í samband við voru sammála um að notendur gerðu sér ekki grein fyrir því hversu mikil vinna væri fólgin í því að stjórna svona hóp. Frank Höybye segist sjaldan fá hrós. „Ég efast um að það finnist vanþakklátara starf,“ segir hann. „Manni er reglulega bent á hvað mætti fara betur en hrós heyrast mjög sjaldan því miður.“ Áslaug María, stjórnandi Beauty Tips segist þó hafa fengið hrós stöku sinnum fyrir að nenna að stjórna hópnum.
Nútíminn hafði einnig samband við Sólveigu Fjólmundsdóttir, stofnanda hópsins Keypt í Costco – myndir og verð en hún sagðist vera erlendis og koma lítið að stjórn hópsins í dag. Hún bætti við að hún ætti enn þá eftir að fara í Costco. Tilraunir Nútímans til að ná í aðra stjórnendur hópsins reyndust árangurslausar.