Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram og eru nú tíu dagar síðan það hófst. Frá því á þriðjudag, 4. júní, hefur einn gígur verið virkur. Hraun hefur undanfarna daga runnið að mestu til norðvesturs og þykknað við Sýlingarfell ásamt því að renna mjög hægfara norður fyrir Sýlingarfell og til vesturs. Í nótt, aðfaranótt laugardags, tók að auka á hraunstreymið norður fyrir Sýlingarfell til vesturs og í átt að Grindarvíkurvegi.
Á laugardagsmorgun var farið í að loka skarðinu í varnargarðinum við Grindarvíkurveg og um hálf ellefu náði hrauntungan veginum rétt norðan við varnargarðinn. Hraun hefur einnig leitað niður með garðinum og er það mjög þykkt við garðinn og hrynur úr því yfir garðinn á kafla. Dregið hefur úr hraða hraunsins eftir hádegi. Framendi hraunbreiðunnar hefur náð í um 800 metra fjarlægð frá heitavatnslögnum og færist hægt í áttina að þeim.
Má álykta að áhlaupinu sé lokið að sinni en búast má við því að það mjatlist eitthvað áfram. Fylgst verður vel með aðstæðum og ekki er útilokað að annað áhlaup geti átt sér stað á næstu dögum.