Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands veitti Piu Kjærsgaard forseta danska Þjóðarþingsins stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu þegar hann fór í opinbera heimsókn til Danmerkur í janúar í fyrra. Það er DV sem greinir frá og vísar í heimasíðu forsetans.
Sjá einnig: Ósætti með hátíðarþingfund Alþingis: VG á einu augabragði betri framsóknarflokkur en Framsókn
Pia er fyrrverandi formaður og stofnandi danska þjóðarflokksins og er þekkt fyrir baráttu gegn fjölmenningu og innflytjendum. Hún var gestur á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í gær og flutti ávarp en vera hennar á fundinum var umdeild.
Píratar sniðgengu hátíðarfundinn og Helga Vala Helgadóttir yfirgaf fundinn þegar Pia flutti ávarp sitt.
Sjá einnig: Píratar sniðganga hátíðarfund Alþingis vegna ávarps Piu Kjærsgaard
Guðni veitti Piu stórriddarakrossinn þann 24. janúar í fyrra þegar hann var í opinberri heimsókn í Danmörku. Meðal annarra sem fengu stórriddarakross í heimsókn forsetans voru Benedikte prinsessa systir Margrétar Þórhildar drottningar, Joachim prins og Marie prinsessa eiginkona hans, Mary krónprinsessa og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur.
Fálkaorðan er yfirleitt veitt eftir tillögu orðunefndar en forsetinn getur þó veitt orðuna án samráðs eða aðkomu orðunefndar.