Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er fyrsti forsetinn í heiminum til að taka opinberlega þátt í gleðigöngu hinsegin fólks. Þetta kemur fram á vefnum Gay Iceland.
Gleðigangan fer af stað í dag klukkan 14 og gengið verður frá Vatnsmýrarvegi að Arnarhóli. Guðni flytur ávarp á göngunni sem er hápunktur Hinsegin daga sem hófust á þriðjudag.
Guðni segist í viðtalinu á Gay Iceland hafa fylgst með göngunni síðustu ár og að hann hafi ekki viljað bregða út af vana sínum. „Ég sagði að sjálfsögðu „já“ um leið og mér var boðið að taka þátt,“ segir hann.
Ég var ekki að spá í hvort einhver þjóðhöfðingi hefði gert þetta á undan mér. Það var ekki það fyrsta sem ég hugsaði um.
Guðni segist í viðtalinu á Gay Iceland telja mikilvægt að berjast fyrir mannréttindum allra, hinsegin fólks og annarra. „Samfélagið stefnir sem betur fer í rétta átt og ef ég get gert eitthvað til að hjálpa til, þá geri ég það með glöðu geði,“ segir hann.
Þegar Jón Gnarr var borgarstjóri fagnaði hann ávallt deginum í draggi. Spurður hvort hann ætli að klæða sig sérstaklega upp fyrir gönguna hlær Guðni og segist ætla í fínu fötin. „En nei, ég fæ ekkert lánað úr fataskáp Páls Óskars.“