Ísland vann Sviss í undankeppni EM í körfubolta í gær. Áður en leikurinn hófst heilsaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, upp á leikmenn liðanna. Og svo gerðist þetta:
Allir i liðinu fengu "gangi ykkur vel" fra Guðna forseta, nema kallinn. Eg fékk "good luck". Annars geðveikur stuðningur i kvöld. Áfram ??!
— Kristófer Acox (@krisacox) August 31, 2016
KR-ingurinn Kristófer Acox er nýr í landsliðshópnum. Þetta tíst hefur vakið mikla athygli og fréttir hafa verið birtar um það á DV, Vísi og mbl.is. Spurður á Twitter hvernig hann svaraði forsetanum segist Kristófer hafa sagt: „Thanks bruh.“ — enda eina rétta svarið.
Guðni var ekki lengi að biðjast afsökunar á þessu hliðarspori
@krisacox Gangi þér vel, rosalega vel. Sorrí, fékk í kollinn hér nýr liðsmaður, ekki með íslensku 100%. My bad. Kemur ekki fyrir aftur 🙂
— Guðni Jóhannesson (@sagnaritari) September 1, 2016
Svo lengi lærir sem lifir.
„My bad“ er auðvitað stórkostleg vísun í heim körfuboltans, hvort sem það er viljandi eða ekki hjá forsetanum. Talið er að þetta orðatiltæki sé runnið undan rifjum körfuboltagoðsagnarinnar Manute Bol sem var á tímabili stærsti leikmaður NBA-deildarinnar, 2,31 m á hæð. Hann lést árið 2010.