Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, birtir færslu á Facebook í dag um leitina að Birnu Brjánsdóttur. Hann hvetur fólk til að varast allt sem gæti sært þá sem síst skyldi eða alið á tortryggni og fordómum.
„Í dag leita hundruð manna að Birnu Brjánsdóttur sem nú hefur verið saknað í viku,“ segir Guðni.
Hugur okkar allra má vera með fjölskyldu Birnu og vinum, björgunarsveitarfólkinu okkar og öllum sem hafa unnið að rannsókn málsins.
Guðni segir að samhugur, stilling og vilji til að láta gott af sér leiða skipti mestu. „Vörumst allt sem gæti sært þá sem síst skyldi eða alið á tortryggni og fordómum. Stöndum áfram saman, Íslendingar, sýnum styrk, von og samkennd,“ segir hann.