Einkaþjálfarinn og áhrifavaldurinn Guðmundur Emil Jóhannsson hefur stigið fram á Instagram-síðu sinni og greint frá því að hann sé maðurinn sem gekk allsber á miðjum Suðurlandsvegi í gær. Fjölmörg myndskeið og ljósmyndir hafa gengið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla frá því um miðjan dag í gær sem sýna Gumma Emil, eins og hann er oftast kallaður, þar sem hann gengur eftir miðjum veginum og stundum í veg fyrir umferð.
Á ljósmyndunum og myndskeiðunum sést greinilega að þarna sé á ferðinni hinn umtalaði áhrifavaldur sem hefur verið mikið í fréttum á þessu ári auk þess sem hann hefur komið fram í fjölmörgum hlaðvörpum. Það er eflaust þess vegna sem hann segir í yfirlýsingu á Instagrams-síðu sinni að hann „sér þess kost vænstan að upplýsa almenning um gjörning þann er ég varð fyrir í gær sunnudaginn 22.sept.“
View this post on Instagram
Engin auglýsing heldur misheppnað „tripp“
Fjölmargir héldu að um einhvers konar auglýsingu væri að ræða fyrir umræddan áhrifavald en svo var ekki heldur var um að ræða misheppnað „sveppatripp“ sem hann segist hafa stefnt að taka þátt í frá því klukkan 08:00 á sunnudagsmorgni til 14:00 sama dag.
„Þetta gera menn og konur til að leita innávið og hefur oft á tíðum skilað góðum árangri. Það er mjög nauðsynlegt að viðkomandi sem tekst á hendur þessa ferð sé undir eftirliti einhverra sem eru alsgáðir og vel með á nótunum.“
Það varð hinsvegar ekki raunin hjá Gumma Emil í gær en hann segist hafa tekið sveppina og ekki vitað af sér fyrr en hann rankaði við sér á bráðadeild Landspítalans. Hvernig hann endaði þar er honum hulið, líkt og fram kemur í yfirlýsingunni. Hann er þakklátur lögreglunni sem kom honum til bjargar sem og starfsfólki bráðamóttökunnar.
Hvetur fólk til að anda að sér góða loftinu
„Það er nokkuð ljóst að ekki verður farið í svona meðferð á næstunni og verður að brýna fyrir fólki að takast ekki á við ferðalag sem þetta nema með fagaðilum sem kunna til verka því í þetta sinn er það alger guðsmildi að ekki fór verr,“ segir Gummi Emil sem virðist ekki mæla með svona „sveppatúr“ eins og hann kallaði það.
„Elsku landsmenn það er auðvitað langbest að anda djúft að sér góða loftinu hérna hjá okkur á Íslandi og láta þar við sytja.“