Plain Vanilla sagði upp öllu starfsfólki sínu í gær og hyggst loka skrifstofu sinni í Reykjavík. Þetta gerðist í kjölfarið á því að bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hætti við framleiðslu á sjónvarpsþætti byggðum á leiknum Quizup.
Sjá einnig: Öllu starfsfólki Plain Vanilla sagt upp, fyrirtækið lokar skrifstofu sinni á Íslandi
Gunnar Hólmsteinn, rekstrarstjóri Plain Vanilla, segir á Facebook-síðu sinni að þetta sé mjög eðlilegur hluti af sprotarokkinu og áhættunni sem var tekin. „Þetta er búið að vera algjört ævintýri en ég vil alls ekki sykurhúða þetta. Okkur mistókst,“ segir hann hreinskilinn.
Þegar ég fékk fréttirnar að ekkert yrði af þætti á NBC fannst mér eins og að ég hefði fengið vinstri krók í magann frá Gunnari Nelson. Ég er sár. Margir voru búnir að vara okkur við því að þeim í Hollywood gæti snúist hugur hratt. Ég trúði því ekki. Barnsleg bjartsýni.
Gunnar segir að það sé margt sem hann hefði viljað gera betur. „Margt sem ég geri öðruvísi næst. Eitt er víst. Ég vil vinna með Plain Vanilla starfsmönnum aftur,“ segir hann.
„Er í vandræðum með að velja hvaða hugmynd tekur næst við. Getum örugglega stofnað fimm ný fyrirtæki út frá hópnum sem er með okkur í dag.“