Ísland og Króatía mætast á HM í fótbolta í Rússlandi klukkan 18. Bókstaflega allt er undir en Ísland verður að vinna leikinn ásamt því að þurfa að treysta á að úrslitin í leik Argentínu og Nígeríu verði hagstæð.
Leikur Argentínu og Nígeríu fer fram á sama tíma og einhver þarf að lýsa honum í beinni útsendingu á RÚV 2. Íþróttafréttamaðurinn Gunnar Birgisson hefur tekið það að sér en það var engan bilbug á honum að finna þegar Nútíminn hafði samband, þrátt fyrir að ólíklegt sé að nokkur maður heyri lýsingu hans.
„Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu krefjandi verkefni,“ segir Gunnar laufléttur í samtali við Nútímann.
Ég er bara eins og landsliðsmennirnir — maður undirbýr sig eins fyrir alla leiki. Þessi leikur gæti skipt okkur miklu máli að lokum. En það er svo aftur annað mál að ég verð sennilega á mute á öllum heimilum landsins.
Gunnar hefur vakið athygli fyrir lýsingar sínar á íþróttum undanfarin misseri. Hann hefur staðið sig vel á HM en lýsingar hans á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu vöktu einnig athygli.
„Það má samt ekki gleymast að ég náði áhorfi á skíðagöngu um miðja nótt í vetur,“ segir Gunnar. „Maður leggur ekkert árar í bát. Argentínu og Nígerumenn landsins sameinist!“