Bardagakappinn Gunnar Nelson mætir Dong Hyun Kim á bardagakvöldi UFC í Belfast í Norður-Írlandi 19. nóvember. Búist er við að bardagi þeirra verði aðalbardagi kvöldsins.
Gunnar var í fréttunum í gær þegar hann komst í tíunda sæti yfir þá bestu í veltivigtinni hjá bardagasambandinu UFC. Hann var hins vegar ekki lengi þar en um kvöldið var svo nýr listi birtur og á honum er Gunnar í 13. sæti (ahugið að meistarinn í hverjum þyngdarflokki er ekki talinn með í númeruðu röðinni).
Ástæðan fyrir því að Gunnar stökk skyndilega upp í tíunda sæti listans var sú að búið er að taka bardagakappann Rory McDonald af listanum. McDonald er að semja við bardagasambandið Bellator en hann hefur verið á meðal þeirra bestu í veltivigtinni í UFC undanfarin ár.
Gunnar er engu að síður á meðal þeirra bestu og mætur reyndum bardagamanni í nóvember. Kim hefur unnið 21 bardaga á ferlinum og aðeins tapað þremur og gert eitt jafntefli. Hann keppti síðast í UFC í nóvember í fyrra þegar hann vann Dominic Waters.