Bandaríska rokkhljómsveitin Guns N’ Roses er væntanleg til landsins og kemur fram á Laugardalsvelli 24. júlí næstkomandi. Aðstandendur segja að um stærstu tónleika Íslandssögunnar sé að ræða. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.
Guns N’ Roses var stofnuð í Los Angeles árið 1985 og er líklega ein allra stærsta hljómsveit rokksögunnar. „Hljómsveitin selt yfir 100 milljón plötur á ferli sínum. Þetta verað síðustu tónleikarnir á hljómleikaferð sveitarinnar og það er óhætt að lofa því að þetta verða stærstu tónleikar sem hafa verið haldnir á Íslandi,“ segir í tilkynningu.
Svið, ljós og hljóðkerfi er allt flutt inn að utan. Sviðið sjálft er 65 metra breitt með risaskjáum á hliðunum. Til samanburðar var aðalsviðið á Secret Solstice í fyrra, sem er stærsta svið sem sett hefur verið upp á Íslandi, 24 metra breitt.
Í tilkynningunni kemur fram að sérstakt gólf verði lagt á grasið á Laugardalsvelli til þess að vernda völlinn fyrir öllu álagi vegna tónleikahaldsins. „Það mun taka um það bil viku að setja upp völlinn fyrir tónleikana og það eru 35 gámar sem þarf að flytja inn til landsins,“ segir í tilkynningunni. „Rúmlega 150 manns ferðast með hljómsveitinni hingað til lands til að sjá um uppsetningu í samvinnu við íslenskt framleiðsluteymi.“
Ýmislegt gengið á í sögu hljómsveitarinnar og hafa tveir aðalmenn hennar, söngvarinn Axl Rose og gítarleikarinn Slash, ekki alltaf átt skap saman. „Árið 2016 var hins vegar tilkynnt að Slash hefði gengið aftur til liðs við hljómsveitina og var hún í kjölfarið aðalnúmerið á Coachella hátíðinni í Bandaríkjunum í apríl 2016. Síðan þá hefur hljómsveitin ferðast um heiminn og hefur verið uppselt á alla tónleika á túrnum þeirra.“
Miðaverð verður frá 18.900 og hefst sala á miðum þann 1. maí á vefsíðunni www.show.is klukkan 10 fyrir hádegi.