Uppfært 18. maí kl. 11.13: Gylfi Ægisson hafði samband við Nútímann og sagðist ekki hafa sagt Helga Hrafn hafa boðið sér að hýsa síðu, eins og kemur fram í textanum hér fyrir neðan. Gylfi segist vera búin að hlusta þáttinn á Útvarpi Sögu og að þar minnist hann hvergi á þetta.
—
Tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson sagði í viðtali á Útvarpi Sögu í vikunni að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafi boðist til að hjálpa honum að halda uppi Facebook-síðunni Barnaskjól, þar sem hinseginfræðslu í grunnskólum í Hafnarfirði er mótmælt.
Sjá einnig: Örskýring um hinseginfræðslu í Hafnarfirði
Helgi Hrafn hefur birt yfirlýsingu um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir Gylfa hafa misskilið sig hræðilega.
„Bara svo það sé á hreinu, þá bauðst ég ekki til að hjálpa Gylfa Ægissyni við að hýsa neina síðu, hvort sem það er hans eigin eða Barnaskjól eða hvað,“ skrifar Helgi.
Eina ráðleggingin sem ég hef handa honum er að virða tjáningarfrelsi annarra. Það eina sem ég hef boðið honum eða mun bjóða honum er að verja rétt hans til að halda áfram að gera sjálfan sig að fullkomnum hálfvita á opinberum vettvangi.
Helgi segist hafa sett inn „tvö málefnaleg og kurteis innlegg“ á síðuna Barnaskjól.
„Eitt var stafsetningarleiðrétting, hitt var sú sjálfsagða spurning: hvernig nákvæmlega telur Gylfi að hinseginfræðsla innræti fólki kynhneigð?“
Hann segir að innlegg sín hafi verið fjarlægð skömmu síðar.
„Ég hafði samband við Gylfa og sagði honum að það væri talsverðu erfiðara fyrir mig að verja rétt hans til tjáningarfrelsis þegar hann heimilaði sjálfur ekki umræðu á síðunni, jafnvel þegar hún væri algerlega málefnaleg og kurteis,“ skrifar hann.
„Sú hjálp sem ég bauð honum var sú að verja tjáningarfrelsi hans og annarra, eins og ég reyndar gerði og mun halda áfram að gera. En það gerir mér erfiðara fyrir þegar menn básúna óvinsælar skoðanir sínar í nafni tjáningarfrelsi, en fjarlægja síðan umræðuna þegar hún á sér stað.
Ég reyndi mitt besta til að benda honum á hræsnina sem felst í píslarvottarstælunum í honum („þá mega þau stinga mér inn!“) eins og hann sé einhver kúgaður riddari réttlætisins, en hann hefur greinilega misskilið nákvæmlega allt sem ég sagði við hann.“
Gylfi sagði í umræddu viðtali á Útvarpi Sögu að Helgi haf sagst vera eini maðurinn sem gæti hjálpað honum.
„Hann sendi mér tölvupóst og sagði: „Gylfi, ég er eini maðurinn sem getur hjálpað þér. Það er verið að tala um að rústa síðunni þinni“. Ég segist ekki vilja neina hjálp frá honum. Svo hangir síðan uppi, ég held að hann hafi talað um þetta í þinginu eða eitthvað, en hin er bara felld. Eins og naut.“
Með „hinni síðunni“ á hann við persónulega Facebook-síðu sína sem var tekin niður í vikunni af sjórnendum samskiptamiðilsins.