Fótboltamaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson svarar spurningum lesenda Fótbolta.net í dag. Einn af þeim sem sendi inn spurningu var tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson sem rifjar upp gamalt atvik sem er augljóslega óuppgert enn þann dag í dag.
Friðrik segir að Gylfi hafi látið skrá á sig mark á Shell-mótinu sem hann segist hafa skorað sjálfur úr hornspyrnu. „Hvað finnst samvisku þinni um þá ákvörðun í dag?“ spyr Friðrik. Gylfi segir í svari sínu að þeir viti báðir að hann hafi snert boltann og stýrt honum í fjærhornið. „En ég vil annars þakka þér fyrir ágætisstoðsendingu.“
Ljóst er að illa gróa gömul sár. Nútíminn hafði samband við Friðrik sem sagði nánar frá atvikinu en það hefur haft mikil áhrif á líf hans. „Já, þetta var sem sagt í leik í riðlakeppni Shell mótsins ’94,“ segir Friðrik.
Það var þannig að samherji okkar Gylfa, Arnór Freyr Guðmundsson, vann hornspyrnu eftir góðan sprett upp vinstri kantinn en seinna átti reyndar rangstöðureglan eftir að valda því að Arnór hætti knattspyrnuiðkun, en það er önnur og lengri saga.
Friðrik segist hafa skokkað rakleiðis að hornfánanum til þess að taka spyrnuna, fullur sjálfstrausts eftir að hafa skorað úr tveimur hornspyrnum í leik fyrr í mótinu. „Því næst skrúfa ég boltann inn að markinu með hægri fæti,“ lýsir hann.
„Snúningurinn á boltanum var hreint út sagt ótrúlegur enda hafði ég grátbeðið foreldra mína fyrir mótið að gefa mér adidas Predator takkaskó — á þeim var riflað gúmmi yfir alla ristina sem jók með óyggjandi hætti snúning knattarins svo um munaði. Þess ber að geta að vindmælingar þennan dag sýndu 0 metra á sekúndu.“
Friðrik segir boltann hafa skrúfast rakleiðis í hliðarnetið fjær og bætir við að markið hafi verið glæsilegt. „Í beinu framhaldi byrjaði ég að taka fuglafagnið sem á þessum tíma var að verða ansi sterkt vörumerki hjá mér, enda hafði ég skorað eins og óður maður í æfingaleikjum vetrarins þetta ár,“ segir hann hógvær.
„En fagnið varði aðeins í skamma stund því mér til mikillar undrunar hópuðust strákarnir allir að Gylfa til að fagna því sem hann vildi meina að væri markið hans. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en mikið seinna, ekki fyrr en kannski uppúr tvítugu, að það var auðvitað þetta atvik sem olli því að draumar mínir um atvinnumennsku urðu aldrei að veruleika.“