Helga Dögg Björgvinsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, segir hugsanlegt að fram komi nýtt kvennaframboð á hægri væng stjórnmálanna fyrir kosningarnar í október. Þetta kom fram í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.
Eftir prófkjör í Sjálfstæðisflokknum um helgina skipa karlar fjögur efstu sætin í Suðvesturkjördæmi og þrjú efstu í Suðurkjördæmi. Helga Dögg sagði í Morgunútvarpinu að staðan í jafnrétti kynjanna væri verri í Sjálfstæðisflokknum en í öðrum flokkum.
Þá sagði hún að konur í kringum hana hafi rætt möguleikann á nýju kvennaframboði. „Það er mjög stutt til kosninga og það þarf að hafa mjög hraðar hendur,“ sagði hún í Morgunútvarpinu.
En já, ég held að það geti alveg verið ef að öflugar konur taka sig saman, að við gætum séð eitthvað slíkt.
Þá benti hún á að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið sett inn jafnréttisákvæði í reglur flokksins, þannig að jafnrétti kynjanna sé eitt af grunngildum hans.