Þjóðvegur eitt um Eldhraun er ennþá lokaður vegna Skaftárhlaups og hjáleið er um Meðallandsveg. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir að það dragi úr hlaupinu hægt og rólega og að nokkrir sólarhringar séu í að áin nái eðlilegu rennsli að því er kemur fram í frétt á vef Mbl.
Sjá einnig: Loka þjóðvegi eitt vestan Kirkjubæjarklausturs vegna Skaftárhlaups
Sérfræðingar á Veðurstofunni sjá á mælum að rennslið fer minnkandi en magnið í hlaupinu hafi verið svo mikið að það muni taka nokkra daga, jafnvel viku, fyrir rennslið í Skaftá að fara aftur í eðlilegt horf.
Í frétt á vef RÚV kemur fram að verið sé að meta aðstæður og hugsanlega þurfi að rjúfa veginn en örlítið hefur bæst í rennslið við þjóðveginn vegna hlaupsins. Ágúst Bjarmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinar í Vík, segir í samtali við RÚV að einn möguleiki sé að rjúfa veginn. „Það er klárlega verið að skoða það að rjúfa og setja ræsi.“
Ágúst segist vera að fara austur að skoða aðstæður en hefur enga hugmynd um hvenær minnkar í vatnasvæðinu sem myndast hefur í hlaupinu.
Umferð er beint um Meðallandsveg á meðan þjóðvegurinn er lokaður en ökumönnum er ráðlagt að keyra varlega vegna ástands vegarins og mælt er með 60 til 70 kílómetra hraða.