Twana Khalid, 28 ára hælisleitandi frá Írak, bíður þess að áfrýjun á umsókn hans um hæli hér á landi verði tekin fyrir. Á meðan dæmir hann fótboltaleiki í sjálfboðavinnu en hann dæmdi í úrvalsdeildinni í Íran áður en hann kom til Íslands. Gunnar Jarl Jónsson, fyrrverandi FIFA-dómari, hefur aðstoðað Twana og skorar á ráðamenn að finna lausn á málinu.
Fótbolti.net fjallaði fyrst um málið en þar kom fram að Twana hefði sótti um hæli hér á landi en var synjað þar sem hann kom til landsins frá Þýskalandi. Gunnar komst í kynni við Twana í gegnum konuna sína sem starfar sem deildarstjóri í grunnskóla. Hann útvegaði honum í framhaldi af því leiki til að dæma.
Hann sér fyrir sér að Twana geti dæmt í deildakeppni á Íslandi. „Ég sæi hann vel dæma hér í deildakeppninni en það er alltaf undir yfirmönnum dómaramála komið, þ.e.a.s. að þeir sjái að hann hafi þau gæði sem til þarf,“ segir Gunnar í samtali við Nútímann.
Gunnar segir það akkur fyrir samfélagið að fá svona fólk til landsins. Hann segir að til þess að Twana geti farið að starfa sem dómari þurfi hann atvinnuleyfi. „Ég skora á ráðamenn hér að taka mál hans og fjölskyldu hans fyrir og finna lausn sem er öllum til hagsbóta. Við sem samfélag hljótum að vilja auka menningu okkar, opna samfélagið og víkka sjóndeildarhringinn.“