Hlýtt loft verður yfir Íslandi í dag samkvæmt textaspá vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands í dag. Það verður þó ekki lengi en hlýja loftið er að flýta sér í vesturátt. Veðurfræðingur segir að hlýja loftinu geti fylgt öflugar skúradembur með þrumum, eldingum og jafnvel hagléli víða um land.
Búast má við hvassviðri á Suðausturlandi í dag og einnig eftir hádegi á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Ferðafólk ætti að hafa það í huga.
Kuldaskil koma upp að Suðausturlandi undir hádegi og færist síðan úrkoman hratt yfir landið og ætti að fara að rigna á höfuðborgarsvæðinu um fimmleytið síðdegis eftir hitinn þar hefur farið upp fyrir 20 gráðurnar.
„Það er að segja ef það hefur ekki gert þrumuveður áður! Því þessu hlýja lofti fylgja talsverðar líkur á öflugum skúradembum með þrumum, eldingum og jafnvel hagli víða um land, þó helst suðvestantil. Útivistarfólk þarf því að fylgjast vel með hættunni á eldingarveðri,” segir í textaspánni.
Hitinn gæti náð 24 stigum yfir hádaginn, hlýjast vestanlands en það kólnar talsvert eftir að kuldaskilin fara yfir.