Leikkonan og grínistinn Bylgja Babýlóns hætti í dagvinnunni til að geta einbeitt sér að uppistandi. Hún segir að það sé hægt á meðan allir halda árshátíðir en býst við að þurfa að fá sér aukavinnu.
Bylgja segir í samtali við Nútímann að hún hafi ekki haft nægan tíma til að gera eitthvað fyndið, þegar hún var í fullri vinnu. „Ég fékk bara leiða á vinnunni minni og fannst hún ekki nógu fyndin,“ segir hún.
Og ég hafði ekki tíma til að gera fyndið. Síðan gerðist það bara óvart að ég fékk nóg af giggum til að borga leiguna.
Hún segir að það sé hægt að lifa á uppistandi á Íslandi. „Á meðan allir eru að halda árshátíðir og hafa gaman,“ segir Bylgja.
„Síðan þarf maður örugglega að fá sér aukavinnu á bar þar sem maður getur sagt drukknu fólki söguna af því þegar maður var einu sinni full time uppistandari.“
En hvað segir fólkið næst þér um þessa risavöxnu ákvörðun?
„Það eru flestir bara hissa og bíða alltaf eftir því að ég fari aftur að læra hagfræði og fái mér alvöru vinnu. Nema systkinum mínum, þeim finnst ég allt í einu mjög kúl.“
Bylgja kemur fram ásamt Hugleiki Dagssyni, Þórdísi Nadiu, Andra Ívars, Snjólaugu Lúðvíks og Ragnari Hanssyni á Hí á Húrra á morgun. Þá kemur hún fram ein í fyrsta skipti á Café Rosenberg þriðjudaginn 23. febrúar.
Hún segir að Hí á Húrra kvöldin séu eins og Tinder í raunveruleikanum. „Við erum öll á lausu, nema gamli gifti gaurinn með börnin, og af öllum kynjum, kynþáttum og tegundum — það veit enginn hvað Hulli er,“ segir hún.
„Áhorfendur geta skoðað varninginn einn af öðrum á meðan hann stendur á sviðinu að reyna að vera fyndinn og geta svo valið sér þann sem þau vilja reyna við eftir sýninguna. Við erum öll til í viðreynslur, nema þú sért creep!“