Auglýsing

Hættusvæðin stækkuð vegna eldgossins: Hraunbreiðan heldur áfram að stækka

Síðustu daga hefur hvorki mælst landris né landsig í Svartsengi. Það bendir til þess að innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé sambærilegt við flæðið úr eldgosinu.

Til þess að fullyrða að landris sé hafið á ný þarf að horfa á þróun mælinga í nokkra daga. Það er vegna þess að breytingar á milli daga geta orðið vegna ýmissa áhrifa, t.d. rakainnihald í lofthjúp eða sólstorma.

Myndin hér að ofan sýnir aðstæður þar sem jafnvægi er á innstreymi kviku í kvikuhólfið og flæði úr eldgosi.

Tvö gosop er nú virk í eldgosinu sem hófst þann 22. ágúst. Þó nokkuð hefur dregið úr krafti eldgossins síðustu daga. Hraunbreiðan norðan við gosopin heldur áfram að stækka en dregið hefur verulega úr útbreiðsluhraðanum. Að svo stöddu ógnar hraunflæði ekki innviðum í nágrenni gosstöðvanna. Meðfylgjandi kort sem byggt er á Iceye gervitunglagögnum sýnir þróun hraunbreiðunnar frá 26. ágúst til 1. september.

Hraunbreiðan nær yfir mörk svæðanna

Veðurstofan hefur uppfært hættumat sitt út frá þróun eldgossins og gildir það að öllu óbreyttu til 5. september. Helstu breytingar eru að svæði 5 fer úr mikilli hættu (rauð) í töluverða hættu (appelsínugul). Ástæðan fyrir því er að ekki er talin vera eins mikil hætta vegna gjósku. Hætta á gasmengun er metin út frá veðurspá næstu daga fyrir hvert svæði.

Nýtt hættusvæði samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Önnur breyting á kortinu er að svæði 3, 5 og 6 hafa verið stækkuð um 2 km til norðausturs. Þessi breyting er gerð af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að hraunbreiðan sem hefur myndast í þessu gosi hefur náð út fyrir fyrri mörk svæðanna. Í öðru lagi til að taka tillit til þess að kvikugangurinn sem myndaðist þann 22. ágúst náði lengra til norðausturs en svæði 3 gerði áður.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing