Líkama Birnu Brjánsdóttur var komið fyrir í Ölfusá við Óseyrarbrú þaðan sem hann á viku í vesturátt upp í fjöru skammt vestan við Selvogsvita. Lík Birnu fannst þar þann 20. janúar í fyrra. Haffræðingur sem kvaddur var fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til að meta hvar líklegast væri að Birnu hefði verið komið fyrir komst að þessari niðurstöðu. Fréttablaðið greinir frá.
Fyrrverandi verjandi Thomasar Møller Olsen fór fram á að sérfræðingur yrði kvaddur fyrir dóminn til að meta hvar líklegast væri að líkama Birnu hefði verið komið fyrir í sjó að teknu tilliti til hafstrauma, veðurfars, landslags og fleira.
Verjandi rökstuddi beiðni sína með því að gögn málsins hefðu sýnt að Olsen hefði aðeins ekið 130 kílómetra að morgni 14. janúar en ef líkama Birnu hafi verið komið fyrir utan þeirrar vegalengdar mætti útiloka sekt hans.
Nákvæmar upplýsingar um ferðir Olsens á bílnum þennan morgun liggja ekki fyrir en lögreglumaður sagði fyrir dómi að líklegast hefði hann ekið Krýsuvíkurleiðina að brúnni yfir Vogsósa og til baka en ef miðað er við niðurstöðu haffræðingsins gæti sú ályktun verið hæpin.
Málið verður tekið fyrir í Landsrétti í haust og búast má við því að matsgerðin verið rædd í þaula þar.