Kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson setti í gær nýtt heimsmet í kútakasti. Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan.
Hafþór kastaði 15 kílóa kúti yfir slá sem var í sjö metra og 15 sentimetra hæð í keppninni um titilinn sterkasti maður heims sem fer nú fram í Botsvana í suðurhluta Afríku.
Þegar þremur keppnisdögum er lokið er Hafþór efstur í sínum riðli. Riðlakeppninni lýkur í dag með keppni í tveimur greinum en tíu efstu keppendurnir fara áfram í úrslit.
Hafþór er ekki eini Íslendingurinn í keppninni en Ari Gunnarsson tekur einnig þátt og er sem stendur í þriðja sæti í sínum riðli.