Auglýsing

Hallarbylting í Samtökunum´78 kom illa við marga: „Systematískt reynt að eyða orðunum hommi og lesbía“

„Félag eins og Samtökin sem setur kenninguna ofar fólkinu – það er ekki mannréttindarfélag. Það er pólitískt félag,“ segir Böðvar Björnsson sem var virkur í Samtökunum´78 á upphafsárum þeirra og tók þá virkan þátt í daglegu starfi félagsins. Böðvar er nýjasti gestur Frosta Logasonar á hlaðvarpsveitunni Brotkast.

„Þetta fór mjög illa í homma og lesbíur hér og það sem fór verst í mig líka var að kenningin er tekin fram yfir fólkið sem samt þykist vera mannréttindafélag“

Böðvar segir að á síðari árum hafi frelsisbaráttu homma og lesbía verið gleymt og að samtökin hafi verið yfirtekin af pólitísku háskólafólki með hinseginhugmyndafræði að vopni.

Femínískar menntakonur tóku yfir

„Þetta eru feminískar menntakonur sem koma inn með þessi „hinseginfræði“ (e. queer theory) eins og það er þýtt á íslensku. Síðan er blandað saman við þetta hugtökum úr fötlunarfræðum og ýmsu öðru. Þessi fræði ætla að eigna sér homma og lesbíur og gerast málsvari þeirra ásamt mörgum öðrum hópum sem þau sögðust vilja sinna og þá jaðarsettum hópum á borð við fólk af öðrum kynþáttum, fatlað fólk og þessháttar. Þau taka sér svo umboð og vald og segjast geta talað fyrir þennan hóp. Ég veit ekki hvaðan þetta umboð og vald kom,“ segir Böðvar sem ítrekar að Samtökin´78 séu áhugamannafélag.

„Þetta er engin ríkisstofnun. Það hefur enginn gefið þeim þetta umboð að fjalla um þetta mál frá þessu sjónarhorni. Þetta fór mjög illa í homma og lesbíur hér og það sem fór verst í mig líka var að kenningin er tekin fram yfir fólkið sem samt þykist vera mannréttindafélag. Þetta er ekki mannréttindafélag lengur – þetta er pólitískt félag. Þegar það eru komnar svona sterkar kenningar inn í félagið þá er þetta pólitískt félag,“ segir Böðvar sem hefur sterkar skoðanir á þeirri hallarbyltingu sem Samtökin ´78 gengu í gegnum.

Allt varð „hinsegin“

Frosti spyr þá hvort hallarbyltingin hafi haft það í för með sér að bannað sé að nota orðið „gay“ en Böðvar er fljótur til svara.

„Það varð allt hinsegin. Hinsegin þýðir það að ég eigi að skilgreina mig út frá því sem ég er ekki. Ég á að segja að ég sé ekki „straight“ – það er skilgreiningin. Það er eins og ég myndi skilgreina mig sem mann með því að segja að ég sé ekki dýr. Þetta er alveg það sama,“ segir Böðvar sem vill skilgreina sig út frá því hver hann er en ekki „hver hann er ekki“ – líkt og hann orðar það.

„Ég er hommi og ég er samkynhneigður. Síðan var systematískt verið að reyna að útrýma orðunum hommi, lesbía og samkynhneigð. Það er aldrei notað. Ef það eru tveir hommar drepnir úti á götu í London þá er sagt: „Tvær hinsegin manneskjur drepnar úti á götu í London.“ Hvers konar manneskja er það?“ spyr Böðvar.

„Þetta er ákveðin taktík til að eyða því sem þeim fannst „veldi hommanna“ í þessari hreyfingu með því að hætta að nefna þá. Eina fólkið sem er nefnt í dag eru trans. Þegar það er fjallað um transmál að þá er alltaf nefnt transfólk og það er náttúrulega mjög gott og eðlilegt. En þegar það eru hommar og lesbíur að þá er það hinsegin. Með því að eyða orðunum að þá ertu að eyða áhrifamætti þeirra,“ segir Böðvar í þessu frábæra viðtali þar sem hann fer yfir sögu sína í Samtökunum ´78.

Hér er myndbrot úr viðtalinu en ef þú vilt hlusta og/eða horfa á það í fullri lengd þá getur þú gert það með áskrift að Brotkast – einni vinsælustu hlaðvarpsveitu landsins.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing