Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason hefur beðist afsökunar á orðum sínum um landsbyggðina á Twitter í gær. Hallgrímur kallaði landsbyggðina hamfarasvæði „þar sem enginn Íslendingur vill búa“ og hefur nú beðið vini sína úti á landi að „fyrirgefa sér ruglið“.
Ég skrifaði hér ruddaleg orð í gær og bið ykkur fyrirgefa, sem og flóttamenn afsökunar. @Thorunnolafsd, já vissi of lítið um málið. Veit að vel verður tekið á móti þeim og bið vini á landsbyggð að fyrirgefa mér ruglið. Get ei tekið orðin aftur en bið ykkur að vega þessi gegn þeim pic.twitter.com/HJxTCFOEpN
— Hallgrímur Helgason (@HalgrimHelgason) February 28, 2018
Orðin lét Hallgrímur falla í umræðu sem hófst þegar sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson velti fyrir sér hvað ræður ákvörðunum stjórnvalda um hvar flóttafólk sest að þegar það flytur til landsins. „Ég ætti sjálfsagt að vita þetta, en spyr hér: Hvers vegna er allt þetta fólk sent út á land? Er það þeirra ósk, mat fagfólks að það sé best eða pólitísk ákvörðun á Íslandi?“ spurði Gísli.
Fjörugar umræður sköpuðust í kjölfarið en til að fyrirbyggja misskilning tók Gísli fram að honum finnist frábært að landsbyggðin verði fyrir valinu ef ósk flóttafólksins sé að setjast að í friðsælum bæjum víðsvegar að um landið eða ef fagfólk telur af einhverri ástæðu að það sé best. „Ég sé bara aldrei spurt að þessu,“ sagði hann.
Íslendingar tóku í gær á móti fimm írökskum fjölskyldum. Tvær setjast að í Súðavík og á Ísafirði, tvær í Neskaupstað og ein á Reyðarfirði. Í næstu viku kemur jafnstór hópur af írökskum og sýrlenskum flóttamönnum sem sest að á Flateyri og Reyðarfirði.
Fjölmargir svöruðu tísti Hallgríms og gagnrýndu hann harðlega. Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur unnið ötult starf í þágu flóttafólks, sagði að bæði höfuðborg og landsbyggð hafi sína kosti og galla í þessum málum eins og öðrum.
„Svona í alvöru talað Hallgrímur? Friðsæll staður með fólki sem er reiðubúið að styðja fólk fyrstu skrefin inn í nýtt samfélag er allt annað en sanngjarnt að kalla hamfarasvæði í þessu samhengi,“ sagði hún á Twitter.