Ummæli Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstri grænna, í Vikulokunum á Rás 1 um helgina hafa vakið mikla athygli. Ögmundur sagði konur í stjórnmálum nýta sér neikvætt umtal sjálfum sér til framdráttar. Hlustaðu á samantekt Nútímans úr þættinum hér fyrir ofan.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, og Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, svöruðu Ögmundi fullum hálsi sem endaði á að Ögmundur tók til máls á ný og sakaði þær um að slá sig niður.
Hanna Birna sagði í þættinum að konur mæti allt öðrum veruleika en karlar í stjórnmálum. „Ef kona stendur fast á sannfæringu sinni þá er hún frekja. Það slettist á karla og þeir eru þá bara að taka þátt í leiknum, leikurinn er svona,“ sagði hún.
En konur lenda í hremmingum og þær eru miklu harðar gagnrýndar … ég veit ekki hversu oft ég hef verið kölluð Ísdrottningin eða Járnfrúin.
Björt Ólafsdóttir tók undir þetta og sagði að á þingi ríkti mikil karlamenning og að oft væru gerðar aðrar og meiri kröfur til kvenna að sanna sig en til karla.
Samantektin hér fyrir ofan hefst þegar Ögmundur tekur til máls og umræðan fer á flug.