Blaðamannafundur íslenska landsliðsins í fótbolta fyrir leikinn gegn Nígeríu var haldinn í morgun. Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson sátu fyrir svörum á fundinum og að sjálfsögðu var spurt um Rúrik Gíslason og Instagram aðgang hans.
Rúrik er kominn með 624 þúsund fylgjendur á Instagram en fyrir leikinn gegn Argentínu var hann með 30 þúsund fylgjendur. Í upphafi blaðamannafundarins var Alfreð spurður út í það hvað hefði breyst hjá honum eftir að hafa skorað fyrsta mark Íslands í sögu HM.
„Ekki mikið. Auðvitað er það bara ótrúlegt að vera hluti af þessu augnabliki. Þetta er eitthvað sem maður mun aldrei gleyma. Annars hefur ekki mikið breyst, ég hef fengið nokkra fylgjendur á Instagram en ekkert jafn mikið og Rúrik,” sagði Alfreð.
Sjá einnig: Rúrik vinsæll í Argentínu: „Hvernig er hægt að vera svona sætur?”
Í lok fundarins voru þeir svo spurðir út í athyglina sem Rúrik er að fá.
„Þetta er bara fyndið og skemmtilegt, sérstaklega fyrir hann. Þetta byrjaði strax eftir leik. Ég veit ekki hvað var að gerast þarna í Suður Ameríku á meðan leikurinn var í gangi en þetta er bara jákvætt fyrir hann og hans markaðsvirði,” sagði Alfreð.
Það var nú mikil vinna lögð í þetta fyrir. Það eru fleiri fylgjendur sem þarf að sinna núna, leggja enn meiri vinnu í þetta. Ég get sagt ykkur að honum leiðist þetta ekkert.
Hannes sagði einfaldlega að Rúrik væri loksins að fá þá viðurkenningu sem hann ætti skilið fyrir þetta ótrúlega útlit.
Blaðamannafundinn í heild sinni má nálgast á Vísi en þar sátu Hannes, Alfreð og Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari liðsins, fyrir svörum.