Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson var gestur í þættinum Vikan með Gísla Marteini á Rúv í gær. Í þættinum horfðu þeir Hannes og Gísli saman á augnablikið þegar Hannes varði víti frá besta fótboltamanni heims, Lionel Messi. Hannes greindi frá því að það hefði tekið hann tvo daga að ná úr sér fiðring eftir leikinn.
Sjá einnig: Alfreð skoraði og Hannes varði vítaspyrnu í sögulegu jafntefli Íslands
Aðspurður um hvort hann hefði verið búinn að ákveða hvert hann ætlað að skutla sér á því augnabliki sem Messi labbar að boltanum, stóð Hannes ekki á svörum: „Já já ég var löngu búinn að ákveða það, ákvað það kvöldið áður,“ sagði Hannes.
Hannes lýsti atvikinu sem hálfgerðu sálarstríði. „Maður reynir að lúkka stór og eins og maður sé til í þetta,“ sagði Hannes og bætti við: „Þetta var ekki leiðinlegt, ég viðurkenni það.“
Viðtalið við Hannes má sjá í heild sinni hér.